Erlent

Khader áhrifalítill í dönskum stjórnmálum

Óli Tynes skrifar
Naser Khader.
Naser Khader.

Danskir stjórnmálaskýrendur segja að hið Nýja Bandalag Nasers Khaders hafi verið kosið út í þingkosningunum í gær. Khader verði áhrifalítill í dönskum stjórnmálum. Khader yfirgaf Radikale vestre til þess að stofna bandalag sitt og mældist með 21 þingmann þegar best lét. Niðurstaðan var hinsvegar sú að Nýja bandalagið fékk fimm þingsæti.

Fyrir kosningarnar var mikið talað um að Khader yrði í lykilstöðu eftir kosningarnar og að Anders Fogh Rasmussen ætti nánast allt undir honum þegar að því kæmi að velja forsætisráðherra. Kasper Möller Hansen, lektor í stjórnmálafræði segir að þetta sé ekki lengur staðan. Khader hafi ekkert með það að gera hver verði forsætisráðherra.

Anders Fogh Rasmussen hefur boðið Nýja bandalaginu samstarf en Hansen segir að það sé mest til þess að sýnast ekki vera blokkar-stjórnmálamaður, sem Dönum líki illa. Hinsvegar sé Khader í mjög, mjög erfiðri samningsstöðu. Hann geti lítið búist við að fá í gegn af þeim baráttumálum sem hann lagði upp með.

Rasmussen hefur þegar gengið á fund Margrétar Þórhildar drottningar og tjáð henni að hann verði áfram forsætisráðherra Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×