Erlent

Það á að hengja homma

Óli Tynes skrifar
Réttdræpir ?
Réttdræpir ?

Íranskur ráðherra sagði á einkafundi með breskum þingmönnum í maí síðastliðnum að það ætti að hengja samkynhneigða. Breska blaðið The Times segir að viðkomandi ráðherra sé æðsti Íranski embættismaðurinn sem hafi haldið fram þessari skoðun opinberlega.

Ahmadinejad, forseti Írans vék sér undan að svara spurningu um þetta þegar hann var gestafyrirlesari við Kólumbía háskólann í New York í haust. Hann svaraði því til að það væru engir samkynhneigðir í Íran.

Á undanförnum árum hafa oft borist fréttir um að samkynhneigðir hafi verið hengdir eða grýttir í hel í Íran. Sérstakan óhug vakti þegar tveit táningspiltar voru hengdir þar árið 2005.

Bresku þingmennirnir segja að ráðherrann hafi reynt að útskýra fyrir þeim að Múhameðstrú leyfði ekki samkynhneigð.

Hann hafi sagt að ef menn væru í felum með hana væri það ekki vandamál. Þeir sem gerðu samband sitt opinbert væru hinsvegar réttdræpir.

Ráðherann sagði að samkynhneigð stríddi gegn náttúrunni. Það væri hlutverk mannkynsins að fjölga sér og það gerðu samkynhneigðir ekki. Hann sagði einnig að til þeirra mætti rekja sjúkdóma eins og eyðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×