Innlent

Hraðahindranir alvarlegt heilbrigðisvandamál

Óli Tynes skrifar
Hopp og hí í strætó.
Hopp og hí í strætó.

Hraðahindranir fara illa með strætisvagnabílstjóra og eiga margir þeirra við bakmeiðsli að stíða af þeirra sökum. Bílstjórarnir sitja eðli málsins fremst í vagninum, fyrir framan hjólin og kastast því hærra og lægra en aðrir sem í vagninum eru.

Sumar hraðahindranirnar eru líka svo brattar að sætispumpurnar skella saman. Þegar menn svo keyra yfir 1000 hraðahindranir eða svo á mánuði, hlýtur eitthvað að gefa sig.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætós, segir að þeir hafi margoft viðrað þetta vandamál við viðkomandi aðila, en ekki hafi verið hlustað á þá.

Bara í síðasta mánuði hafi til dæmis verið bætt við sjö hraðahindrunum í Breiðholtinu.

Erlendis eru hraðahindranir víða með þeim hætti að götur eru þrengdar á ákveðnum köflum. Það er að vísu til hér á landi, en hraðahindranir sem þarf að aka yfir eru í margföldum meirihluta.

Fyrir utan heilsutjón bílstjóranna eru hraðahindranirnar líka dýrar fyrir Strætó. Þegar vagnarnir eru fullir af fólki skella þeir stundum niður þegar farið er yfir þær og það veldur umtalsverðu tjóni.

Í Kaupmannahöfn fara strætisvagnafyrirtæki þá leiðina að hætta að aka þær götur sem eru með hraðahindrunum sem þarf að aka yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×