Erlent

Herforingja hunsa Sameinuðu þjóðirnar

Óli Tynes skrifar
Aung San Suu Kyi.
Aung San Suu Kyi.

Herforingjastjórnin í Burma hefur hafnað beiðni sérlegs sendiherra Sameinuðu þjóðanna um þríhliða viðræður við Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu. Ibrahim Gambari sagði að slíkar viðræður væru nauðsynlegar til þess að koma á stöðugleika og friði í landinu.

Kyaw Hsan, upplýsingamálaráðherra Burma sagði hinsvegar að slíkur fundur væri ótímabær. Hann varaði einnig við því að harðari alþjóðlegar refsiaðgerðir myndu aðeins gera illt verra. Burma myndi aldrei beygja sig fyrir utanaðkomandi þrýstingi.

Aung San Suu Kyi er friðarverðlaunahafi Nóbels. Árið 1990 vann flokkur hennar yfirburðarsigur í kosningum í landinu. Herstjórnin ógilti hinsvegar kosningarnar og Aung San hefur setið í stofufangelsi í tólf af síðustu átján árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×