Erlent

Múslimar reyna að bjarga jólunum

Óli Tynes skrifar
Frekar Harry Potter ?
Frekar Harry Potter ?

Áhrifamikil samtök kristinna manna og múslima í Bretlandi ætla að reyna að bjarga jólunum frá pólitískri rétthugsun. Tilefnið er að hugmyndabanki Verkamannaflokksins lagði til að dregið yrði úr gildi jólanna til þess að bæta samskipti mismunandi trúarhópa.

Niðurstaða hugmyndabankans var sú að það gæti reynst erfitt að banna jólin. Það ætti þó því aðeins að halda þau hátíðleg að hátíðum annarra trúarbragða yrði gert jafn hátt undir höfði. Samtökin Christian Muslim Forum eru ekki hrifin af þessum hugmyndum.

David Gillette, biskup í Bolton er annar formaður samtakanna. Hann sagði við fréttamenn að yfirgnæfandi meirihluti bresku þjóðarinnar vildi halda í sín kristnu jól. Hinn formaðurinn er Sheikh Ibrahim Mogra, æðstiklerkur múslima í Leicester.

Hann sagði við fréttamenn að múslimar vildu ekki draga úr gildi nokkurrar hátíðar. Hann telji ekki að jafnrétti náist með því að draga úr mikilvægi þeirra. Einum eða tveimur múslimum væri kannski í nöp við jólin en yfirgnæfandi meirihluti vildi leyfa öllum að hafa sínar hátíðar fyrir sig.

Kristið fólk í Bretlandi er áhyggjufullt yfir að verið sé að reyna að ýta kristinni trú til hliðar. Stjórnmálamenn eru farnir að forðast jólakort með kristilegum boðskap og jólahátíðir eru í sumum tilfellum kallaðar eitthvað annað.

Árið 1998 skírði Birmingham jólin upp á nýtt og kallaði þau "Winterwal." Og árið 2001 skýrði Luton sína hátíð Luminos og tileinkaði hana Harry Potter frekar en Jesúbarninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×