Erlent

Forsætisráðherra afneitar lesbískri dóttur

Óli Tynes skrifar

Jafnréttisbaráttufólk í Kambódíu hefur harðlega gagnrýnt Hun Sen forsætisráðherra fyrir að reyna að afneita ungri fósturdóttur sinni vegna þess að hún er samkynhneigð. Við skólaútskrift sagði forsætisráðherrann að hann hefði sín persónulegu vandamál gagnvart ungu fólki.

"Fósturdóttir mín á sér eiginkonu, nú mun ég biðja dómstóla um að losa hana úr fjölskyldu minni. "

Hun Sen sagði að hann gæti menntað alla þjóðina en hann gæti ekki menntað sína eigin dóttur. "Við sendum hana til náms í Bandaríkjunum en hún stóð sig illa. Hún sneri heim og tók sér eiginkonu."

Um þetta segja mannréttindasamtök við forsætisráðherrann; "Þú þarft ekki að vera sammála ákvörðun hennar en þú verður að virða réttindi hennar."

Hun Sen er fyrrverandi liðsmaður í her Rauðu Kmeranna. Hann hefur stýrt Kambódíu í tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×