Erlent

Upplausn í Amsterdam eftir að Marokkómaður var skotinn

Óli Tynes skrifar
Við lögreglustöðina í Amsterdam.
Við lögreglustöðina í Amsterdam.

Síðan ungur marokkómaður var skotinn til bana eftir að hafa stungið tvo lögregluþjóna með hnífi hafa ungir innflytjendur í Amsterdam haldið vöku fyrir öðrum íbúum borgarinnar með því að kveikja í bílum og ráðast á lögreglustöðvar.

Þetta byrjaði um síðustu helgi þegar 22 ára gamall maður af marokkóskum uppruna stökk innfyrir afgreiðsluborðið á lögreglustöðinni í Slotervaart hverfi. Hann réðst á lögreglukonu sem þar var og stakk hana þrem stungum í brjóst og bak.

Þegar félagi hennar reyndi að koma henni til hjálpar var hann sjálfur stunginn fimm sinnum í háls og öxl. Lögreglukonan dró þá upp skammbyssu sína og skaut Marokkómanninn til bana.

Síðan hefur ríkt óöld í hverfinu. Kveikt hefur verið í ellefu bílum að nóttu til og lögreglustöðin grýtt.

Lögreglan segir að það sé þrjátíu og fimm manna kjarni innflytjenda sem stendur fyrir óeirðunum. Mörg ungmennasamtök og leiðtogar múslima hafa fordæmt óeirðirnar í hverfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×