Erlent

Bjarndýr drap mann í Svíþjóð

Óli Tynes skrifar

Bjarndýr varð sextugum karlmanni að bana í grennd við bæinn Valsjöby í Svíþjóð í morgun. Íbúar í Valsjöby hafa lengi óttast að þetta myndi gerast. Lítið hefur verið um ber fyrir bjarndýrin sem þá verða hungruð og árásargjörn. Þeir segja einnig að bjarndýrum hafi fjölgað mjög á þessum slóðum undanfarin ár.

Það voru félagar mannsins sem fundu lík hans skammt frá veiðikofa sem hann bjó í. Þeir höfðu ætlað að ganga til elgveiða. Þegar hann reyndist ekki til staðar fóru þeir að leita og fundu hund hans dauðan rétt hjá kofanum. Illa leikið lík mannsins fannst skömmu seinna í kjarri. Hann hafði verið óvpnaður þegar hann hitti bjarndýrið.

Talið er líklegt að hundur mannsins hafi farið að gelta þegar hann sá bjarndýrið og að maðurinn hafi þá komið út úr kofanum til þess að kanna hvað væri á seyði. Yfirvöld hafa ákveðið að leita björninn uppi og skjóta hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×