Innlent

Orkurisar sameinast

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Nýtt og öflugt félag í orkugeiranum varð til í dag þegar Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy voru sameinuð. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur staðfesti samkomulagið nú síðdegis eftir átakafund. Fulltrúi minnihlutans, Svandís Svavarsdóttir, gagnrýndi harðlega að þurfa að taka afstöðu til þessa stóra máls á þremur klukkustundum.

Hún sat hjá við afgreiðslu málsins og kvaðst ekki hafa tekið afstöðu til samrunans sem slíks, en ekki væri hægt að bjóða fólki, sem á að gæta hagsmuna almennings í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, upp á það að meta svo stóran samruna á fáeinum klukkustundum.

Heildarhlutafé eftir sameiningu verður rúmlega 40 milljarðar króna og félagið mun ganga undir nafni Reykjavík energy invest. Orkuveitan er stærsti hluthafinn en aðrir stóru eigendurnir eru FL Group, Atorka Group, Glitnir, Goldman Sachs og Ólafur Jóhann Ólafsson og VGK Hönnun.

Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar orkuveitunnar, kveðst hafa skilning á gagnrýni minnihlutans en þessi viðskipti séu af slíkri stærðargráðu að ekki hafi verið hægt að hafa þau í lausu lofti um langa hríð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×