Erlent

Háttsettur al-Kaída liði felldur

Kristinn Hrafnsson í Írak skrifar

Bandarísk hermálayfirvöld segjast hafa fellt háttsettan liðsmann al-Kaída í Írak í vikunni. Írakar segja almenna borgara hafa falliði með honum - því neita Bandaríkjamenn.

Bandaríkjamenn fullyrtu í gær að þeir hefðu fellt einn mikilvægasta leiðtoga al Kaída hryðjuverkasamtakanna í Írak. Sá er frá Túnis, Abu Usama al-Tunisi. Talið er að hann hafi skipulagt mannrán og morð á bandarísku hermönnum í Írak síðastliðið sumar. Bandaríski herinn segir al-Tunisi hafa fallið í loftárásum á skotmörk hér í Bagdad fyrr í vikunni. 20 til viðbótar týndu einnig lífi. Írakar segja suma þeirra hafa verið almenna borgara. Því hafna Bandaríkjamenn - þetta hafi verið andspyrnumenn.

Al-Tunisi mun hafa verið með bækistöðvar í suðvestur Bagdad síðan barist var um Falluja í nóvember 2004. Hann mun hafa skipulagt rán á tveimur bandarískum hermönnum í júní í fyrra. Lík þeirra fundust skömmu síðar.

Bandaríkjamenn segja viðbótarlið upp á um þrjátíu þúsund bandaríska hermenn hafa gert gæfumuninn í baráttunni við al-Kaída. Færri morð séu framin og ekki eins mörgum rænt. Búið er að hólfa Bagdad niður og segja margir hér að það minni um margt á aðgerðir í Belfast þegar barist var sem mest á Norður-Írlandi. Talsmaður Bandaríkjahers segir að tekist hafi verið að hefta straum erlendar bardaga manna hingað til Íraks með harðari landamæragæslu.

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingar fundust fimm lík í jafnmörgum hverfum Bagdad í gær auk þess sem al Kaída liðar sem enn ganga lausir gerðu árás á súnnía sem voru að störfum fyrir Bandaríkjaher suður af höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×