Íslenski boltinn

Nánast öruggt að Guðjón fari frá Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Baldvinsson er á leið frá Stjörnunni.
Guðjón Baldvinsson er á leið frá Stjörnunni. Mynd/Heiða

Guðjón Baldvinsson, leikmaður 1. deildarliðs Stjörnunnar, segir afar líklegt að hann fari frá liðinu í haust.

Litlu mátti muna að hann gengi til liðs við annað hvort Víking eða Fylki síðastliðið vor en Stjarnan ákvað að hafna tilboðum liðanna. Guðjón er samningsbundinn Stjörnunni til 2009.

Guðjón hætti um tíma að æfa með Stjörunni en málið var leyst með því að setja nýja klásúlu í samning Guðjóns.

„Samkvæmt samningnum mega önnur lið ræða við Stjörnunna frá miðjum október til desember," sagði Guðjón. „Ef liðin uppfylla ákveðnar kröfur Stjörnunnar er þeim svo frjálst að ræða við mig."

„Ég tel nánast 100 prósent líkur á því að það gangi eftir."

Guðjón er U-21 landsliðsmaður en hann hefur skorað tólf mörk í sextán leikjum með Stjörnunni í 1. deildinni í sumar. Hann er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Atla Viðari Björnssyni, leikmanni Fjölnis.

„Sumarið hefur verið mjög gott. Það rættist mjög vel úr þessu," sagði hann.

Hann hefur þó undanfarið átt við meiðsli í ökkla að stríða og missir af leik Stjörnunnar og Víkings frá Ólafsvík um helgina.

Guðjón stefnir þó að því að verða orðinn klár í leik Stjörnunnar gegn Njarðvík í lokaumferð deildarinnar á föstudaginn næsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×