Ingi Hrannar Heimisson, leikmaður Þórs, græddi vel á því að fá rautt spjald í leik Þór og Leiknis á laugardaginn.
Ingi Hrannar fékk í leiknum sitt áttunda spjald á tímabilinu og hefði þar með átt að fara í tveggja leikja bann.
Hann reifst hins vegar við dómarann eftir leik með þeim afleiðingum að hann fékk rautt spjald frá dómaranum. Þar með fékk hann bara eins leiks bann eins og kom fram í úrskurði aganefndar KSÍ í gær.
Í reglugerð KSÍ kemur eftirfarandi fram:
"Sé leikmanni vísað af leikvelli eftir að hann hefur hlotið áminningu, skal hann eingöngu hljóta refsingu í samræmi við brottvísunina, þ.e. áminningin fellur niður."
Þar með er ljóst að áminningin sem Ingi Hrannar fékk í leiknum þurrkast út og hefur hann því enn aðeins hlotið sjö gul spjöld á leiktíðinni.
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs, segir að þetta hafi ekki verið viljandi gert hjá Inga Hrannari.
"Alls ekki. Hins vegar er einkennilegt að hann hafi grætt á þessu. Þetta kemur afar furðulega út. Menn eiga aldrei geta grætt á því að fá rautt spjald."