Erlent

Skora á ríki að ráða kennara og lækna í þróunarlöndunum

Þórir Guðmundsson skrifar

Bresku hjálparsamtökin Oxfam skoruðu fyrir helgi á ríki heims að ráða sex milljón kennara og lækna í þróunarlöndum og tryggja þannig öllum jarðarbúum menntun og heilbrigðisþjónustu.

Oxfam ætlar að safna sex milljón undirskriftum til að leggja áherslu á þetta einfalda úrræði til þess að bæta menntun og heilbrigði þar sem skortur á hvoru tveggja er mestur. Víða á Indlandi má sjá þennan vanda í hnotskurn.

Afsan er kannari þar. Hann segir nemendur 223 í sínum skóla en kennarar aðeins 4. Einn þeirra sé upptekinn við að þjálfa aðra kennara og skólastjórinn við stjórnunarstörf. Aðeins 2 kennarar kenni því börnunum. Ekki sé hægt að uppfræða börnin svo vel sé með svo fáa kennara.

Oxfam hefur fengið leikara frá Bollywood og Hollywood til að leggja áherslu á það markmið að bæta við sex milljón kennurum, læknum og hjúkrunarfræðingum í þróunarlöndum. Þau vilja að fátæku löndin verji auknu fé í menntun og heilsugæslu og ríku löndin beini aðstoð sinni einkum í sömu átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×