Innlent

Fólk fær að kaupa í Símanum fyrir áramót

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Engin áform eru uppi hjá Símanum um að fá undanþágu til að fresta því að selja almenningi þrjátíu prósenta hlut í félaginu. Fyrirtækið verður skráð í Kauphöllinni fyrir áramót.

Frá því var sagt í Markaðnum í vikunni að forsvarsmenn Símans kynnu að fara fram á undanþágu frá samkomulagi sínu við einkavæðingarnefnd um að selja almenningi þrjátíu prósenta hlut í fyrirtækinu - og skrá það þar með á markað fyrir áramót.

Jón Sveinsson, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, sagði í samtali við fréttastofu í dag að Síminn kæmist ekki undan þessari kvöð, en gæti sótt um undanþágu ef því svo sýndist. Þegar náðist í Brynjólf Bjarnason, forstjóra Símans, í dag, aftók hann með öllu að menn væru íhuga að sækja um slíka undanþágu. Stefnt væri að því að skrá fyrirtækið fyrir áramót, eins og samningurinn gerir ráð fyrir, sú vinna gengi vel og væri á lokastigi.

Síminn var einkavæddur árið 2005. Kaupandinn var félag í eigu Exista og Kaupþings sem keypti Símann á 66,7 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×