Erlent

Olía en ekki almannahagur

Guðjón Helgason skrifar

Hagur Íraka var aldrei aðal ástæðan fyrir innrásinni í Írak 2003 heldur olía. Þetta segir Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Afgerandi yfirlýsing frá annars orðvörum manni segir íslenskur stjórnmálafræðingur.

Greenspan, sem er 81 árs, er flokksbróðir George Bush Bandaríkjaforseta. Hann stýrði Seðlabanka Bandaríkjanna við góðan orðstír í 18 ár eða þar til í janúar í fyrra. Æviminningar Greenspans koma út á morgun.

Lundúnablaðið Sunday Times segir í dag að í bókinni fullyrði hann að olía hafi verið meginástæða innrásarinnar í Írak 2003 - ekki góðvild í garð Íraka.

Vesturveldin hafi viljað tryggja sér ódýra olíu. Saddam Hússein, Íraksforseta, hafi ógnað stöðugleika í Miðausturlöndum og þar með olíubirgðum þar og því hafi orðið að koma honum frá.

Bandaríkjamenn og Bretar hafa ætíð vísað þessu á bug.

Jón Ormur Halldórsson, stjórnmálafræðingur, segir Greenspan njóta mikilla virðingar í Bandaríkjunum. Hann sé þekktur fyrir íhaldssemi og því verði hann vart sakaður um að vera andstæðingur ríkjandi sjónarmiða í Bandaríkjunum. Yfirlýsingar hans geti haft mikla þýðingu fyrir umræðuna í Bandaríkjunum.

Jón Ormur segir að þó Bandaríkin séu opið og frjálst þjóðfélag þá sé það þannig með umræðuna þar í landi - sérstaklega orðræðuna um alþjóðamál - að það séu ýmsir hlutir, sem virðist augljósir fyrir þeim sem eitthvað þekki til málanna, sem má ekki segja án þess að mönnum séu gerðar upp sakir - einhvers konar annarlegir pólitískir hagsmunir eða eitthvað slíkt. Það eigi sérstaklega við um Miðausturlönd þar sem tvöföld bannhelgi gildi - annars vegar vegna Ísraels og hins vegar vegna olíuhagsmuna Bandaríkjamanna. Það að Greenspan, sem sé sérstaklega þekktur fyrir varfærni í umræðum, tali svona bendi til þess að umræðan gæti opnast nokkuð á næstunni í Bandaríkjunnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×