Körfubolti

Greg Oden úr leik hjá Portland

Greg Oden spilar tæplega með Portland á næsta tímabili
Greg Oden spilar tæplega með Portland á næsta tímabili NordicPhotos/GettyImages

NBA lið Portland Trailblazers varð fyrir gríðarlegu áfalli í dag þegar í ljós kom að nýliði liðsins Greg Oden þarf að fara í stóran hnéuppskurð og spilar því líklega ekkert með liðinu í vetur. Oden var valinn fyrstur í nýliðavalinu í sumar og bundu forráðamenn Portland miklar vonir við piltinn.

Þessi leiðinlega uppákoma hefur strax vakið upp minningar frá árinu 1984 í Portland, en þá valdi liðið miðherjann Sam Bowie númer tvö í nýliðavalinu. Bowie þótti mikið efni en meiddist fljótlega og náði ferlinum aldrei á strik eftir það. Maðurinn sem valinn var númer þrjú í nýliðavalinu það árið er flestum að góðu kunnur, en það er sexfaldur NBA-meistari Michael Jordan.

Portland átti fyrsta valréttinn í nýliðavalinu í sumar, en Seattle valdi þá hinn magnaða Kevin Durant númer tvö. Þessir tveir þóttu tveir langbestu leikmennirnir í nýliðavalinu í sumar og margir vildu meina að Durant væri meira efni í ofurstjörnu í deildinni. Það er því spurning hvort forráðamenn Portland eru farnir að hafa efasemdir um val sitt í sumar, en þeir verða líklega að bíða í að minnsta kosti eitt ár eftir að sjá fjárfestingu sína spila leik í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×