Erlent

Bandarískum hermönnum ekki fækkað strax

Guðjón Helgason skrifar

Meira en helmingur Íraka segir árásir á bandaríska hermenn í landinu réttlætanlegar. Skýrsla um framvindu stríðsins í Írak var kynnt í dag.

Breska ríkisútvarpið, BBC, og bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hafa látið gera könnun um viðhorf Íraka til aðgerða Bandaríkjamanna í landinu og hvernig þeir vilji taka á erlendu herliði.

Meirihluti Íraka telur árásir á bandaríska hermenn réttlætanlegar. 93% súnnía telja árásir í lagi og helmingur sjía. Aðeins 5% Kúrda eru á sama máli.

Árásir á íraskar sveitir eru síður ásættanlegar samkvæmt könnuninni. 18% Súnnía segja þær í lagi en aðeins 2% Sjía og Kúrda.

Spurt var hvenær erlendar hersveitir eigi að fara frá Írak. Yfirgnæfandi meirihluti Súnnía vill að þær fari strax en innan við helmingur sjía sem vilja leggja áherslu á að tryggja öryggi almennra borgara eða styrk ríkisstjórnar.

Einnig var spurt það hafi skilað árangri í öryggisgæslfu að fjölga bandarískum hermönnum í Bagdad og næsta nágrenni. 168 þúsund bandarískir hermenn eru nú í landinu en frá febrúar og fram í júní fjölgaði þeim um 30 þúsund. Mikill meirihluti Íraka segir ástandið verra á þessum svæðum og skiptir litlu hvort talað er við súnnía eða sjía.

Heraflinn í Írak var til umræðu í Washington í dag þegar David Petraeus, yfirhershöfðingi í Írak, og Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna, kynntu Bandaríkjaþingi skýrslu sína um málið. Þeir koma fyrir þingnefndir í dag og næstu tvo daga.

Petraeus sagði markmiðum með fjölgun í herliðinu að mestu náð. Árásum og ódæðum hafi fækkað. Hann segir þó ekki hægt að fækka hermönnum fyrr en næsta sumar. Petraeus segir þá óhætt að kalla um 30 þúsund hermenn heim og síðan verði haldið áfram stig af stigi. Ómögulegt sé þó að segja til um hversu hratt það geti gengið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×