Erlent

Kom og fór

Guðjón Helgason skrifar

Sjö ára útlegð Nawas Sharifs, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, lauk í morgun en hún hófst aftur sex klukkustundum eftir heimkomuna. Músharraf lét vísa þessu svarna óvini sínum úr landi til að forða sér frá hatrammri deilu um forsetaembættið.

Flugvél forsætisráðherrans fyrrverandi lenti á flugvellinum í Íslamabad í morgun. Eftir tveggja klukkustunda reikistefnu þar var Sharif úrskurðaður í gæsluvarðhald og ákærður fyrir spillingu og peningaþvætti. Það gæsluvarðhald var þó skammvinnt því fjórum tímum eftir það var hann kominn um borð í flugvél sem lagði af stað með hann til Jeddah í Sádí Arabíu - þar sem hann hefur dvalið í útlegð síðan 1999 eða frá því Pervez Musharraf, núverandi forseti og yfirmaður pakistanska hersins, kom honum frá völdum í blóðlausri byltingu.

Áður en Sharif kom heim í morgun hafði hann lýst því yfir að hann ætlaði að berjast við Musharraf um forsetaembættið í kosningum í næsta mánuði. Mennirnir tveir eru svarnir andstæðingar og þegar þetta fréttist lét Musharraf handtaka tvö þúsund stuðningsmenn Sharifs. Lögregla herti öryggisgæslu á flugvellinum í höfuðborginni - meðal annars til að koma í veg fyrir að stuðningsmenn Sharfis kæmust þar að til að fagna heimkomu hans.

Hæstiréttur Pakistans úrskurðaði í síðasta mánuði að Sharif væri heimilt að snúa aftur til landsins en stjórnvöld og gestgjafar hans í Sádí Arabíu hvatt hann til að gera það ekki og tryggja þar með stöðugleika í landinu.

Telja stjórnmálaskýrendur að vinsældir Musharrafs eigi enn eftir að dvína eftir atburði morgunsins og óttast margir að uppúr sjóði. Musharraf hefur hrapað í vinsældum og hefur hann reynt að laga stöðu sína með að semja frið við annan andstæðing, Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra, sem einnig er í útlegð. Hún fengi þá forsætisráðherraembættið en Musharraf héldi sínu. Samningar hafa ekki tekist og Bhutto boðað heimkomu þrátt fyrir handtökuskipun vegna spillingarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×