Erlent

Deilt um hvort Kastró sé allur eða ekki

Guðjón Helgason skrifar

Fídel Kastró, Kúbuforseti, er látinn. Þetta fullyrti sænskt héraðsfréttablað í gær og sagði haft eftir öruggum heimildum. Ekki hefur þetta fengist staðfest en orðrómur um andlát leiðtogans kraumar meðal Kúbverja í Bandaríkjunum.

Héraðsfréttablaðið Norra Skåne sagði frá því í gær að Kastró væri allur og hafði eftir heimildarmönnum sínum að formlega yrði tilkynnt um þetta á miðnætti í gærkvöldi. Engar fréttir hafa borist af andlátini Kastrós í dag. Fréttaristjóri Norra Skåne sagði í samtali við sænska blaðið Expressen að heimildirnar hefðu verið afar áreiðanlegar og því hefði verið rangt að birta þetta ekki.

Forsetinn varð 81 árs 13. ágúst síðastliðinn. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan hann gekkst undir þarmaaðgerð í fyrra. Þá fól hann Raúl bróður sínum valdataumana. Síðan hafa verið birtar ýmsar myndir af byltingaleiðtoganum aldna á sjúkrabeðinu, en engar nýjar frá því í byrjun júní þegar hann veitti viðtal í sjónvarpi. Hann tók ekki þátt í hátíðarhöldum vegna byltingarafmælisins í lok júlí. Fyrir þeim fór Raúl.

Orðrómur um andlát Kastrós hefur verið þrálátur meðal brottfluttra Kúbverja í Bandaríkjunum í heilt ár en samkvæmt bandríska blaðinu Washington Post er hann þrálátari nú en áður. Þeir fengu byr undir báða vængi þegar mikilsmettir landflótta Kúbverjar funduðu á Miami í gær til að ræða hvað gera skyldi við andlát forsetans.

Felipe Perez Roque, utanríkisráðherra Kúbu, segir ekkert hæft í andlátsfréttum. Fídel sé í fínu formi og fylgi læknisráði svo hann nái fullri heilsu.

En þrátt fyrir það lifir sagan góðu lífi og þá þarf Kastró gamli bara að koma fram opinberlega til að kveða orðróminn um andlát sitt niður sé hann ekki á rökum reistur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×