Erlent

Skotinn og fangelsaður í Danmörku

Óli Tynes skrifar
Lögregluvörður við vígvöllinn í Amager.
Lögregluvörður við vígvöllinn í Amager. MYND/Nyhedsavisen

Maður sem danskir lögregluþjónar skutu eftir að hann hafði sært tvo þeirra með hnífi, hefur verið úrskurðaður í hálfs mánaðar gæsluvarðhald. Lögregluþjónarnir höfðu verið sendir til þess að aðstoða við að bera fjölskyldu út úr íbúð í Amager. Húsaleigan hafði ekki verið greidd í marga mánuði. Þegar fulltrúar fógeta komu á vettvang hafði fjölskyldan víggirt sig.

Lögregluþjónarnir, karl og kona, rifu burt vígið og komust inn í íbúðina. Húsmóðirin greip þá hníf og hélt að hálsi sér. Hún hótaði að skera sig á háls. Heimilisfaðirinn greip annan hníf og bar hann að hálsi sex ára dóttur þeirra. Hann hótaði að skera hana á háls ef þau yrðu ekki látin í friði.

Að sögn lögreglunnar réðst maðurinn svo skyndilega á lögregluþjónana. Hann gat fellt konuna í gólfið og stakk hnífnum í fót hennar. Þegar starfsbróðir hennar greip inn í fékk hann stungusár í handlegginn. Lögregluþjónninn dró þá upp skammbyssu sína og skaut þrem aðvörunarskotum.

Í fjórða skotinu klikkaði byssan. Heimilisfaðirinn var enn veifandi hnífnum. Lögreglukonan dró þá upp sína skammbyssu og skaut hann í magann. Hann var svo fluttur á sjúkrahús og hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Félagsmálayfirvöld tóku að sér eiginkonuna og barnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×