Allt það nýjasta úr heimi tölvuleikja má nú sjá og prufa í Leipzig í Þýskalandi. Árleg ráðstefna um tölvuleiki hófst þar í gær og þangað streyma nú hundruðir þúsunda gesta.
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „tölvuleikir fyrir alla". Þeir sem sækja samkomuna geta fengið að prufa nýjustu leikina á markaði og nýjustu leikjatölvurnar. Hægt er að prufa hefðbundna skot- og slagsmálaleiki en það er ekki það eina í boði. Aðrir og heilbrigðari tölvuleikir hafa fengið spilara til að standa upp úr þægilegum stólum sínum og hrista sig og hreyfa.
Hægt er nota tölvuleiki til að reyna færni sína rafmagnsgítar nú eða stíga létt spor til að kanna fimi á dansgólfinu. Ef tónlist og fótafimi heilla ekki má sveifla golfkylfu og sjá hvort forgjöfin breytist eitthvað. Hentugt fyrir þá sem vilja stunda íþróttina þegar veður á Íslandi leyfir ekki. Af þessu segja sérfræðingar að megi ráða að skotleikir séu ekki lengur allsráðandi á tölvuleikjamarkaðnum líkt og fyrir nokkrum árum.
Annað sem heillar er sýndarveröld netsins - Second Life - viðbótar líf eins konar - þar sem hægt er að skapa annað sjálf sem í flestum tilvikum er afar ólíkt hinu raunverulega. Tölvuleikjasérfræðingar segja þarna kominn umfangsmikinn leik sem eldri spilarar hafi tapað sér í síðustu misseri - skapað sér persónu og átt samskipti við aðra á vefnum.
Þeir sem vilja gleyma amstri dagsins geta skoðað framboðið í Leipzig fram á sunnudaginn.