Erlent

Konur hafa bleik gen

Óli Tynes skrifar
Konur elska hvað sem er, í bleiku.
Konur elska hvað sem er, í bleiku.

Ný rannsókn hefur leitt í ljós að ást á bleika litnum er í genum kvenna. Anya Hurlbert sem er prófessor við háskólann í Newcastle telur að það megi rekja til aftur til steinaldar þegar mannskepnan lifði á veiðum og tínslu. Karlmennirnir veiddu dýr en konurnar tíndu ávexti og annan jarðargróður í matinn.

Í rannsóknarverkefni sínu gerði Anya tilraunir með 220 nemendum skólans og fékk einnig 40 Kínverja til liðs við sig. Nemendurnir sátu við tölvurnar og færðu músina yfir þá litaflekki sem þeim leist best á. Niðurstaðan var sú sama hjá báðum hópunum. Bæði vestrænu og kínversku konurnar völdu bleikt eða rautt.

Anya rekur þetta aftur til þess að á steinöld hafi konur valið rauðleita ávexti vegna þess að þeir voru þroskaðir. Það hafi fest sig í genum þeirra. Litgreiningarfræðingurinn Dr. Yazhu Ling frá Kína er sammála.

"Það er engin hefð fyrir bleikum lit fyrir stúlkur í mínu landi. En niðurstöðurnar voru þær sömu hjá kínversku og bresku stúlkunum. Þær völdu bleikt. Það sýnir að það eru líffræðilegar ástæður fyrir litavalinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×