Erlent

Bíða eftir flugi frá Júkatan-skaga

Guðjón Helgason skrifar

Tíu Íslendingar bíða milli vonar og ótta um hvort þeir nái flugi frá Júkatan skaga nú þegar fellibylurinn Dean stefnir hraðbyri á Mexíkó. Íslendingarnir fóru frá Cancun í gær þar sem búist er við miklum veðurofsa. Óttast er að bylurinn nái mesta styrk áður en hann skellur á Mexíkó á næstu klukkustundum.

Mexíkóbúar, íbúar á Cayman-eyjum og Belísbúar eru viðbúnir því versta nú þegar fellibylurinn Dean sæki í sig veðrið. Hann fór yfir suðurhluta Jamaíka í gær og morgun og voru skemmdir nokkuð minni en óttast var. Þrátt fyrir það hefur forsætisráðherra eyjunnar lýst yfir neyðarástandi næsta mánuðinn og óvíst hvort hægt verði að kjósa þign í næstu viku líst og áformað var.

Bylurinn fer yfir norðurhluta Belís og skellur á strandhéruðum Mexíkó á Júkatan skaga. Hann fer síðan yfir Campache-flóa og Mexíkó flóa og ná landi í Tampico í Mexíkó.

Óttast er að bylurinn nái fullum styrk innan sólahrings og vindhraði nærri sjötíu metrar á sekúndu. Íbúar búast við hinu versta en bylurinn hefur valdið minnst sex dauðsföllum á Karíbahafseyjum svo vitað sé.

Tíu Íslendingar eru nú á Júkatan-skaga. Útskriftahópur frá Háskólanum á Bifröst. Bjarni Þórisson segir hópinn hafa farið frá Cancun í gær en þar sé óttast að bylurinn valdi miklum skemmdum og til Campache, hinu megin á skaganum. Hann segir þaðan stefnt á flug til Mexíkóborgar og síðan til New York. Allt flug sé þó bókað þannig að óvíst sé að það takist í tæka tíð.

Bjarni segir utanríkisráðuneytið hafa aðstoðað hópinn. Hann segir Íslendingana ekki þekkja hættu sem þessa. Þeir hafi fengið að vita hjá innfæddum að þeir óttuðust að þetta yrði mikið ofsaveður. Þeir væru því að byrgja fyrir glugga og búa sig vel.

Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu að tíu manna hópurinn væru einu Íslendingarnir sem hefðu haft samband vegna fellibylsins. Ekki væri vitað til þess að aðrir Íslendingar væru á svæðinu þar sem Dean hefði farið um eða ætti eftir að fara um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×