Erlent

Eineggja fjórburar fæddust í Bandaríkjunum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Eineggja fjórburar fæddust á sjúkrahúsi í Montana í Bandaríkjunum á sunndag. Einungis er vitað um 50 pör af eineggja fjórburum í heiminum, en líkurnar á að eignast slíka fjölbura eru einn á móti þrettán milljónum.

Fjórburarnir eru stúlkubörn, fæddar tveimur mánuðum fyrir tímann, sem þykir nokkuð löng meðganga fyrir fjórbura. Autumn, Brooke, Calissa og Dahlia heilsast vel og þurfa ekki aðstoð við öndun. Þær voru teknar með keisaraskurði og vógu frá fjórum mörkum til fimm og hálfrar merkur. Foreldrarnir eru kanadískir og eiga fyrir tveggja ára gamlan dreng. Þau keyrðu rúmlega fimm hundruð kílómetra leið frá Calgary til Great Falls í Montana í Bandaríkjunum til að Karen gæti fætt börnin þar sem sjúkrahús í Calgary voru yfirfull. Foreldrarnir Karen og J.P. Jepp voru að vonum himinlifandi og sögðu enga tilfinningu þessu líka.

Stúlkurnar verða líklega til umönnunar á sjúkrahúsi í sex vikur, en verða fluttar á sjúkrahús til Calgary við fyrsta tækifæri.

Engin frjósemislyf komu við sögu eineggja fjórburanna, enda hafa þau ekki áhrif á eineggja fjölbura þar sem um er að ræða skiptingu fósturvísis í einu frjóvguðu eggi. Síðast er vitað um eineggja fjórburafæðinu í apríl árið 2006 á Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×