Erlent

Illdeila mafíufjölskyldna teygir sig til Þýskalands

Guðjón Helgason skrifar

Svo virðist sem áratugagömul illdeila tveggja ítalskra mafíufjölskyldna hafi teygt sig til Þýskalands. Sex karlmenn tengdir annarri fjölskyldunni voru allir myrtir í Duisburg í nótt.

Mennirnir voru allir skotnir í höfuðið þar sem þeir sátu í tveimur bílum fyrir utan ítalskan veitingastað nærri lestarstöðinni í Duisburg í vesturhluta Þýskalands í nótt. Mennirnir tengjast allir veitingastaðnum. Þegar lögregla kom á vettvang var einn þeirra með lífsmarki en hann lést á leið á sjúkrahús.

Heinz Sprenger, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Duisburg segir vitað að þrír úr hópnum hafi búið í Duisburg, einn í Muelheim en tveir komið nýlega frá Ítalíu til Þýskalands í heimsókn.

Vitni sá tvo menn hlaupa frá morðstaðnum og þeirra er nú leitað.

Fréttir frá Ítalíu herma að mennirnir tengist ´Ndrangheta glæpasamtökunum í Kalabríu á Suður-Ítalíu. Tvær fjölskyldur innan samtakanna hafa barist í sextán ár.

Fimmtán morð hafa nú verið framin vegna illdeilunnar sem kennd er við þorpið San Luca þar sem upphaf hennar er að rekja.

Friðsamlegt hafði verið milli fjölskyldnanna frá árinu 2000 og þar til á jóladag í fyrra. Þá var Maria Strangio, eiginkona eins höfuðpaursins, myrt. Þá sauð upp úr á ný og annað morð framið í vor. Óttast ítalska lögreglan mafíustríð og hefur alþjóðalögreglan Interpol sent sérfræðinga í mafíunni til Þýskalands til að rannsaka morðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×