Erlent

Sjálfstæð þjóð í 60 ár

Guðjón Helgason skrifar

60 ár er í dag frá því Pakistanar brutust undan nýlendustjórn Breta og stofnuðu eigin ríki. Þeim tímamótum var fagnað víða um landið í dag. Indverjar fagna sínu frelsi á morgun.

Pakistan og Indland voru eitt þar til 1947 þegar Bretar skipti svæðinu í tvö ríki. Einhverjir mesti þjóðflutningar sögunnar hófust þá þar sem um tíu milljón manns fóru yfir landamærin þar sem múslimar voru í Pakistan og Hindúar í meirihluta á Indlandi. Til mikilla átaka kom síðan og talið að á bilinu tvö hundruð þúsund og milljón manns hafi fallið.

Sjálfstæðu Pakistan í sextíu ár var fagnað víða um landið í dag. Fjölmargir fylgdust með vaktaskiptum prúðbúinna varða við

grafhýsi Muhammad Ali Jinnah í Karachi en við það var lagður blómsveigur í morgun í tilefni dagsins. Jinnah er álitin faðir Pakistans.

Shaukat Aziz, forsætisráðherra Pakistans, var viðstaddur hátíðarhöld í Íslamabad í morgun. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á að Pakistanar yrðu ætíð að sýna styrk sinn á alþjóðlegum vettvangi.

Hann sagði kjarnorkukerfi landsins byggt á traustum grunni. Vel sé hægt að verja kjarnorkuver landsins og þá staði þar sem kjarnorkuvopn séu geymd. Veik þjóð geti ekki stillt til friðar í heiminum. Þess vegna hafi Pakistanar styrkt varnarkerfi sitt með hverju árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×