Erlent

Rússar hefja aftur kalda-stríðs herflug sitt

Óli Tynes skrifar
Bandarísk orrustuþota fylgist með rússneskri Bear sprengjuflugvél á árum kalda stríðsins.
Bandarísk orrustuþota fylgist með rússneskri Bear sprengjuflugvél á árum kalda stríðsins.

Rússneski flugherinn er aftur farinn að senda sprengjuflugvélar sínar í langar eftirlitsferðir til svæða þar sem Bandaríkin og NATO halda uppi eftirliti. Gera má því skóna að rússneskar sprengjuflugvélar fari aftur að sjást í grennd við Ísland. Rússar stefna ákveðnir að því að endurheimta sinni fyrri sess og sýna hervald sitt langt útfyrir eigin landamæri. Reuters fréttastofan orðar þetta á þá leið að Rússar hafi tekið upp kalda-stríðs flug sitt á nýjan leik.

Í gær flaug langdræg rússnesk sprengjuflugvél yfir herstöð Bandaríkjamanna á Guam eyju á Kyrrahafi. Rússneskur hershöfðingi sagði að rússnesku flugmennirnir hefðu skipst á brosum við bandarísku orrustuflugmennina sem voru sendir upp til þess að taka á móti þeim.

Hershöfðinginn Pavel Androsov sem stjórnar langflugssveitum rússneska flughersins sagði á fundi með fréttamönnum að það sé löng hefð fyrir því að þeir fari víða og fylgist meðal annars með ferðum bandarískra flugmóðurskipa. Það flug hefur þó að mestu legið niðri eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur.

Sem fyrr segir stefna Rússar nú að því að endurheimta sinn fyrri sess sem herveldi. Aðeins eru nokkrir dagar síðan þeir lýstu því yfir að þeir ætli að halda úti flota á Miðjarðarhafi. Í síðustu viku sendu Bretar orrustuþotur til móts við rússneskar sprengjuflugvélar sem stefndu inn í breska lofthelgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×