Erlent

Ekki ákveðið hvort bólusett verður

Guðjón Helgason skrifar

Gin- og klaufaveiki hefur greinst á öðru nautgripabúi í Suður-Englandi og óttast að veikin hafi einnig greinst á því þriðja. Ekki hefur verið ákveðið hvort skepnur á Englandi verði nú bólusettar við veikinni í stórum stíl. Gin- og klaufaveiki er afar smitandi og leggst á klaufdýr - nautgripi, sauðfé, svín og geitur.

Bresk sóttvarnaryfirvöld greindu frá því í morgun að veikin hefði greinst á öðru búi - það er innan þeirrar varnarlínu sem afmörkuð var umhverfis búið þar sem veikin greindist fyrir helgi. Sky fréttastofan greindi síðan frá því í dag að óttast væri að veikin hefði greinst á því þriðja en það hefur ekki verið staðfest.

Á blaðamannafundi bresku bændasamtakanna í dag sagði bóndinn á Woolford-búgarðinu, þar sem veikin greindist fyrst, að niðurstaðan hefði verið honum mikið áfall. Hann horfi þó helst á orðsport búgarðsins en peningtap. Það hafi tekið tvo áratugi að byggja upp gott orðspor og það verði erfitt að ná því aftur.

Talsmaður bændasamtakanna sagði á fundinum að tap bænda vegna veikinnar nú væri þegar hægt að mæla í tugum milljóna punda. Hann segir allt gert nú til að koma í veg fyrir að tilfellum fjölgi og um faraldur verði að ræða líkt og 2001 þegar farga þurfti sjö milljón dýrum.

Ekki hefur verið ákveðið hvort skepnur verði bólusettar fyrir veikinni en bændasamtökin bresku hafa hingað til verið andvíg því. Talsmaður þeirra segir þetta þó möguleika sem verði að skoða nú. Bresk yfirvöld hafa fyrirskipað að nægt bóluefni verið til taks verði ákveðið að bólusetja dýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×