Erlent

Gin- og klaufaveiki greinist á öðru býli

Guðjón Helgason skrifar

Gin- og klaufaveiki hefur greinst á öðru nautgripabúi á Suður-Englandi og óttast að veikin hafi einnig greinst á því þriðja. Bændur á Bretlandseyjum segja það mikið áfall ef í ljós komi að sjúkdómurinn hafi borist í dýrin frá rannsóknarstöð sem meðal annars framleiðir bóluefni gegn sjúkdómnum.

Í morgun var greint frá því að gin- og klaufaveiki hefði greinst á nautgripabúi sem er í nokkurra kílómetra fjarlæðg frá búinu þar sem veikin greindist í síðustu viku. Um hundrað gripum hefur verið fargað. Ákveðið verður síðar í dag hvort varnarsvæðið verður stækkað. Sky fréttastofan greindi frá því í morgun að hugsanlega hefði veikin greinst á þriðja búinu til viðbótar en það hefur þó ekki verið staðfest. Óttast er að veikin, sem er afar smitandi, breiðist út um Suður-England og því allt gert til að koma í veg fyrir það.

Enn er verið að rannsaka hvort sjúkdómurinn hafi borist í skepnurnar frá Pibright rannsóknarstöðinni sem er skammt frá býlunum en þar hafði veiran sem veldur veikinni verið meðhöndluð, bæði að opinberri stofnun sem annast dýraveikivarnir og einkareknu lyfjafyrirtæki. Verið er að kanna hvort öryggisreglum hafi verið fylgt en forsvarsmenn rannsóknarstöðvarinnar segja að svo hafi verið. Enn er verið að kanna hvort veiran hafi borist í skepnurnar með flóðvatni þegar sem mest flæddi á Englandi fyrr í sumar.

Bóndinn á býlinu þar sem veikin greindist fyrst kom fram á blaðamannafundi hjá bresku bændasamtökunum í morgun. Hann sagði þetta hafa verið mikið áfall fyrir sig. Hann sagði að það hefði flætt upp úr holræsum á býlinu fyrr í sumar og það hefði einnig geta valdið smitinu. Talsmaður bændasamtakanna segir sjúkdóminn geta kostað bændur og aðra í samstarfi við þá tugi milljóna punda.

Breska ríkisstjórnin hefur í samráði við Evrópusambandið bannað alla flutninga á lifandi búfé frá Englandi, Skotlandi og Wales og í morgun var formlegt bann á útflutningi á kjöt- og mjólkurafurðum útfært. Bann innflutningi á skepnum og afurðum frá Bretlandi til Norður-Írlands er einnig í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×