Erlent

Náðu tökum á eldunum

Guðjón Helgason skrifar

Miklir skógareldar hafa logað í Suður-Evrópu það sem af er sumri og hafa ekki verið verri í þeim hluta álfunnar fyrr. Neyðarástandi var lýst yfir í króatísku hafnarborginni Dubrovnik um helgina en í dag náðu slökkviliðsmenn tökum á eldunum sem loguðu þar.

Hvert hitametið hefur verið slegið í Suður-Evrópu það sem af er sumri. Fyrir vikið hafa skógareldar logað í Króatíu síðustu daga en einnig í Albaníu, Búlgaríu, Grikklandi, á Ítalíu, í Makedóníu og Tyrklandi. Talið er að enn eigi eftir að hitna víða á svæðinu og óttast eldar kunni að kvikna í Portúgal og á Spáni.

Talið er að þrjú þúsund ferkílómetrar af skólendi hafi orðið eldunum að bráð það sem af er sumri - meira en allt árið í fyrra - og eldarnir því einhverjir þeir verstu sem sögur fara af í þessum hluta álfunnar.

Óttast var að eldar sem loguðu í króatísku hafnaborginni Dubrovnik um helgina breiddust frekar út og ógnuðu þar með sögufrægum miðaldabyggingum, en borgin, sem oft er kölluð Perla Adríahafsins, er á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Fimm hundruð slökkviliðsmenn böruðst við eldana í gær og í nótt en vindar og ósprungnar jarðsprengjur frá tíma stríðsátaka á Balkanskaganum, hömluðu aðgerðum.

Í dag náðu þeir tökum á eldunum. Ekki reyndist þörf á að flytja fólk á brott frá heimilum sínum. Nokkur hús skemmdust en aðeins eitt brann til grunna.

Eldarnir kviknuðu í Bosníu-Hersegóvínu og breiddust til Dubrovnik. Borgin er vinsæll ferðamannastaður en ferðamenn þar voru ekki í neinni hættu þar sem eldarnir náðu ekki nærri ströndinni þar sem flest hótel í hafnarborginni standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×