Erlent

Ein af ráðgátum Titanic slyssins leyst

Óli Tynes skrifar

Ein af stærstu ráðgátum Titanic slyssins er nú loksins leyst. Búið er að bera kennsl á eins árs dreng sem fannst látinn á reki í sjónum sex dögum eftir að skipið sökk árið 1912. Hann var breskur, og hét Sidney Leslie Goodwin. Talið er að 1512 manns hafi farist með Titanic, en aldrei hefur tekist að negla niður ákveðna tölu.

Fjölmargir fóru með Titanic niður í kalda gröf en það fundust einnig mörg lík á reki í sjónum og það var mikið verk að bera kennsl á þau. Sex dögum eftir að skipið fórst fannst lík af eins árs gömlum dreng á reki. Enginn gat borið kennsl á hann en leiddar voru líkur að því að hann hefði verið finnskur og heitið Eino Panula. Sem slíkur var hann jarðsettur.

En vísindunum hefur fleygt fram síðan 1912 og með DNA greiningu hafa kanadiskir vísindamenn komist að því að drengurinn hét Sidney Leslie Goodwin. Foreldrar hans voru breskir og ætluðu að freista gæfunnar í Ameríku, eins og svo margir aðrir farþegar á þriðja farrými.

Sidney litli var jarðsettur í Halifax í Kanada, eins og aðrir sem fórust með skipinu sem átti ekki að geta sokkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×