Erlent

Landamæragirðing ógnar vistkerfi

Starfsmenn bandaríska hersins að störfum við girðinguna
Starfsmenn bandaríska hersins að störfum við girðinguna MYND/AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hvetja Banaríkjamenn til þess að breyta áætlunum sínum um viðbætur við girðingu á landamærum ríkjanna. Mexíkóskir umhverfissérfræðingar telja að þær geti haft skaðleg áhrif á umhverfið og villt dýralíf. Þeir segja girðinguna ógna einstöku vistkerfi þar á meðal í Sonora eyðimörkinni.

Girðingunni er ætlað halda aftur að ólöglegum innflytjendum til Bandaríkjanna en málefni þeirra eru umdeild í landinu. Talið er að um 12 milljónir ólöglegra innflytjanda séu í Bandaríkjunum.

Áætlað er að girðingin muni ná yfir 1.125 km af landamærunum og verður hún búin hátækni eftirlitsbúnaði, meðal annars skynjurum og sterkum ljósum. Talið er að ljósin geti haft áhrif á næturdýr á svæðinu og eins getur girðingin sundrað dýrategundum í smærri hópa.

Stjórnvöld í Mexíkó segjast reiðubúin að leggja fram kvörtun til Alþjóðadómstólsins en þau vilji kanna aðra möguleika sem gætu dregið úr umhverfisáhrifum fyrst. Tillögur um græn hlið á girðingunni sem gefa dýrunum tækifæri á að ferðast á milli hafa verið lagðar fram sem og lifandi girðingar með kaktusum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×