Erlent

26.000 friðargæsluliðar sendir til Darfur

Hermenn Afríkusambandsins verða hluti af friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Darfur
Hermenn Afríkusambandsins verða hluti af friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Darfur MYND/AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag einróma að senda 26.000 friðargæsluliða og lögreglu til Darfur-héraðsins í Súdan. Markmiðið er að draga úr ofbeldi á svæðinu.

Friðargæslulið Afríkusambandisins er fyrir í Darfur en því hefur ekki tekist að binda enda á óöldina. Friðargæsluliðin tvö munu taka höndum saman á svæðinu og verður við það til fjölmennasta friðargæslulið heims.

Um 2,1 milljónir manna hafa verið hraktir frá heimilum sínum í Darfur og áætlað er að um 200.000 hafi látið þar lífið í átökum sem hófust 2003.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði "verkefnið sögulegt og að það ætti sér engin fordæmi."

Emyr Jones Parry, sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum, sem vann að gerð samþykktarinnar sagði að hún sem slík myndi ekki bjarga mannslífum í Darfur. En ákvörðunin gæfi von um nýtt upphaf.

Samþykktin veitir friðargæsluliðinu leyfi til að beita valdi í sjálfsvörn. Því má einnig beita til að tryggja ferðafrelsi mannúðarsamtaka og til að vernda óbreytta borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×