Erlent

Kúbverjar eygja von -og þó

Óli Tynes skrifar
Raul Castro.
Raul Castro.
Sumir Kúbverjar þykjast nú eygja vonarglætu eftir ræðu sem settur forseti landsins Raul Castro flutti á byltingardaginn í síðustu viku. Hann sagði þar meðal annars að laun opinberra starfsmanna væru sýnilega alltof lág og að landbúnaðurinn væri hlægilega óskilvirkur. Hann sagði einnig að erlendir fjárfestar væru velkomnir til Kúbu og það þyrfti að gera grundvallarbreytingar til þess að auka matvælaframleiðslu.

Þetta hefur vakið vonir um að eitthvað verði gert til þess að hressa upp á efnahag landsins, þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur 14 bandaríkjadali í laun á mánuði. Kona sem Reuters fréttastofan talaði við í Havana sagði að fólkið væri vonbetra. Ræðan sýndi að Raul væri traustur í sessi og að breytingar væru í vændum.

Eiginmaður hennar var ekki eins bjartsýnn. Hann sagði að hann hefði heyrt sama sönginn í mörg ár. Laun hans dygðu aðeins fyrir grænmeti, þau hefðu ekki efni á að kaupa kjöt. Þegar hér var komið sögu sagði eiginkonum honum að þegja, hann gæti verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×