Erlent

Belgar deila um innflytjendastefnu stjórnvalda

Jónas Haraldsson skrifar

Belgískir fjölmiðlar og mannréttindafrömuðir önduðu léttar í dag þegar frestað var að reka úr landi unga stúlku frá Ekvador og móður hennar sem eru þar ólöglegir innflytjendur. Málið hefur vakið upp spurningar varðandi innflytjendastefnu í Belgíu.

Almenningi blöskraði aðför yfirvalda að mæðgunum en stúlkan hefur verið í skóla í Belgíu í lengri tíma. Auk þess verður faðir hennar eftir í landinu, en hann er einnig ólöglegur innflytjandi. Þrátt fyrir það hefur hann ekki verið handtekinn. Mannréttindahópar hafa líka gagnrýnt yfirvöld harkalega fyrir að halda stúlkunni, sem er 11 ára, í gæsluvarðhaldi og segja að það sé brot á öllum þeim mannréttindasáttmálum sem Belgía hefur samþykkt.

Dómstólar fyrirskipuðu að mæðgunum skyldi sleppt úr haldi aðeins nokkrum klukkutímum áður en átti að senda þær úr landi. Fjölmiðlar í Belgíu, sem og Ekvador, hafa farið mikinn í málinu. Þá hefur hin belgíska eiginkona Rafael Correa, forseta Ekvador, tekið málið upp á sínar hendur og barist fyrir hönd mæðgnanna.

Brottrekstur úr landi er viðkvæmt málefni í Belgíu. Dauði tvítugrar nígerískrar stúlku, þegar verið var að reka hana úr landi gegn vilja sínum árið 1998, er Belgum enn í fersku minni.

Þó svo að úrskurður dómstóla í dag hafi verið sigur fyrir mæðgurnar frá Ekvador er baráttu þeirra fyrir að vera áfram í Belgíu síður en svo lokið. Þær eiga enn á hættu að vera reknar úr landi en lögfræðingur þeirra ætlar sér að reyna að sækja um landvistarleyfi fyrir þær á forsendum þeirra tengsla sem þær hafa við þjóðfélagið. Hann segist þó ekki bjartsýnn þar sem belgísk yfirvöld samþykki sjaldan þau rök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×