Erlent

Heimsótti skotgrafir fyrri heimsstyrjaldar 90 árum eftir að hafa barist þar

Jónas Haraldsson skrifar
Patch og van Emden á ferð um Belgíu.
Patch og van Emden á ferð um Belgíu. MYND/Vísir

Síðasti eftirlifandi Bretinn sem barðist í skotgröfum fyrri heimsstyrjaldarinnar heimsótti nýverið staðinn þar sem fleiri en 250 þúsund breskir hermenn létu lífið fyrir 90 árum síðan. Harry Patch, 109 ára, fór til Belgíu til þess að minnast bardagans um þorpið Passchendaele.

Hann minntist bæði fallinna félaga sem og Þjóðverja og sagði þá hafa þjáðst alveg jafnmikið. Minningarathafnir vegna bardagans hefjast á morgun.

Patch var í fótgönguliði hertogans af Cornwall og var kallaður í herinn þegar hann var 18 ára. Hann var þá lærlingur hjá pípara. Hann særðist alvarlega í skotgröfunum þegar sprengja sprakk aðeins nokkra metra frá honum. Þrír bestu vinir hans létu lífið í sprengingunni. Patch ferðaðist um svæðið með sagnfræðingnum Richard van Emden, sem hefur skráð endurminningar hans. Saman fóru þeir um þær fimm mílur sem bandamenn börðust við Þjóðverja um. Bardaginn tók 99 daga.

Patch sagði stríð ekki virði eins mannlífs. „Of margir féllu í valinn. Stríð er ekki virði eins lífs," sagði hann. „Stríð er úthugsuð og viðurkennd aðferð til þess að slátra saklausu fólki," bætti hann síðan við.

Hann sagði Þjóðverja hafa þjáðst ekki síður en bandamenn. Talið er að fleiri en 260 þúsund Þjóðverjar hafi látið lífið í bardaganum um Passchendaele. Bardagans er ekki síst minnst vegna þeirrar gríðarlegu rigningar sem var á meðan barist var. Bæði menn og hestar drukknuðu í leðjunni. Breskar, kanadískar, ástralskar og suður-afrískar hersveitir börðust þar gegn hersveitum Þjóðverja.

Fréttastofa BBC sagði frá þessu í dag.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×