Erlent

Fíkniefnapeningum varið í meðferðarúrræði

Peningarnir sem fundust á heimili Ye Gon í mars
Peningarnir sem fundust á heimili Ye Gon í mars MYND/AP

Lögregla í Bandaríkjunum handtók á miðvikudag Zhenli Ye Gon, mexíkóskan mann af kínverskum uppruna, fjórum mánuðum eftir að einn stærsti peningafundur fíkniefnasögunnar var gerður á heimili hans í Mexíkóborg. Peningar sem samsvara 205 milljónum Bandaríkjadala fundust þar bak við falska veggi.

Ye Gon er grunaður um að eiga aðild að ólöglegum innflutningi á efninu pseudoephedrine, sem notað er í framleiðslu metamfetamíns, til Bandaríkjanna. Hann var einnig eftirlýstur í Mexíkó vegna gruns um aðild að skipulagðri glæpastarfsemi og vopnaviðskiptum.

Þar sem enginn gerði tilkall til peninganna innan níutíu daga frá því að þeir fundust renna þeir, samkvæmt mexíkóskum lögum, til ríkisins. Mexíkósk yfirvöld hafa ákveðið að peningunum verði varið í meðferðarúrræði fyrir fíkla og í baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Ye Gon, sem á lyfjarannsóknarstofu, neitar sakargiftum. Hann hefur borið því við að Felipe Calderon, forseti Mexíkó, hafi neytt hann til að geyma peninganna er kosningarnar 2006 stóðu yfir. Calderon segir þessar fullyrðingar vera hreinan skáldskap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×