Erlent

Rottur herja á flóðasvæði í Englandi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Rottur herja nú á flóðahús í Bretlandi á sama tíma og eigendur þeirra hafa sumir hverjir haldið heim á ný. Karl Bretaprins heimsækir íbúa á flóðasvæðinu í dag en þúsundir eru enn án rafmagns og vatns.

Hundruð íbúa flóðasvæðanna í Bretlandi hafa nú snúið aftur til síns heima. Mörgum þeirra mætir gífurlegt eignartjón auk þess sem vatnsskortur og rafmagnsleysi hrjáir þúsundir íbúa. Sky fréttastofan greinir frá því að rottur herji nú á mörg flóðahúsanna og auki það mjög á hættu á sýkingum en hræsla er nú þegar við að drykkjarvatn á sumum svæðum sé sýkt.

Íbúar hafa verið varaðir við vatnspumpum sem ganga fyrir eldsneyti, en tveir menn létust úr eitrun þegar þeir reyndu að dæla vatni úr íþróttahúsi með eldsneytisdælu sem spúði eiturgufum. Lík þriðja fórnarlambs flóðanna fannst í ánni Great Ouse á þriðjudag, en það var karlmaður á fimmtugsaldri.

Talið er að flóðin í Bretlandi séu afleiðing þess að loftstraumar og lægðir ganga nú sunnar en verið hefur. Þetta hefur orsakað einmuna veðurblíðu hér á landi í sumar, á sama tíma og úrhelli er í Bretlandi og einir mestu hitar í manna minnum í suðaustur Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×