Erlent

Suður-Kóreumenn í haldi talibana enn á lífi

Trúboðarnir sem um ræðir.
Trúboðarnir sem um ræðir. MYND/AP

22 Suður-Kóreumenn sem eru í haldi talibana í Afganistan eru enn á lífi þrátt fyrir að frestur sem þeir gáfu til þess að semja um lausn þeirra hafi runnið út. Munir Mungal, aðstoðarinnanríkisráðherra Afganistan, sem er í samninganefndinni sem reynir að fá Suður-Kóreumennina lausa, skýrði frá þessu í morgun.

„Þau eru á lífi og hafa það gott," sagði Mungal, sem sér einnig um viðræður við annan hóp sem heldur kristnu fólki í gíslingu.

Suður-Kóreumennirnir voru kristnir trúboðar sem fóru til Afganistan þrátt fyrir ferðaviðvörun þarlendra stjórnvalda. 23 voru upphaflega í hópnum en talibanar hafa þegar myrt einn þeirra. Í gær hringdi einn gíslanna til Suður-Kóreu og grátbað stjórnvöld að semja um lausn þeirra. Talibanar vilja að Suður-Kórea kalli hermenn sína heim frá landinu og að ákveðnum mönnum sem eru í haldi bandamanna verði sleppt. Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa hins vegar neitað að kalla hermenn sína frá Afganistan, en þeir eiga að fara heim um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×