Erlent

Þjóðverjar hatast við Tom Cruise

Óli Tynes skrifar

Tom Cruise hefur orðið fyrir heiftarlegum árásum opinberra aðila í Þýskalandi. Þar hefur hann verið við tökur á kvikmynd um tilræðið við Adolf Hitler í júlí árið 1944. Cruise hefur meðal annars verið líkt við Jósef Göbbels, áróðursmeistara Hitlers. Óánægja Þjóðverja virðist eiga sér trúarlegar rætur.

Í myndinni leikur Cruise Claus von Stauffenberg sem fór fyrir hópnum sem reyndi að ráða Hitler af dögum með sprengju. Bæði þýska varnarmálaráðuneytið, þýskir þingmenn og ættingjar von Stauffenbergs hafa harðlega gagnrýnt gerð myndarinnar og Cruise sérstaklega. Að því er virðist vegna aðildar hans að Vísindakirkjunni svokölluðu.

Þetta hefur meðal annars leitt af sér að kvikmyndafólkinu var bannaður aðgangur að ýmsum sögulegum stöðum í Berlín. Nú hefur þýska mótmælendakirkjan bæst í hóp gagnrýnenda. Thomas Gandow, talsmaður kirkjunnar segir að Vísindakirkjan sé einræðissamtök og að Tom Cruise sé hennar Göbbels.

Gandow bætir því við að kvikmyndin hafi sama áróðursgildi fyrir Vísindakirkjuna og Ólympíuleikarnir í Berlín árið 1936 höfðu fyrir nazista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×