Erlent

Starfsfólk BBC á námskeið til að læra að segja satt

Óli Tynes skrifar

Yfir 16 þúsund starfsmenn breska ríkissjónvarpsins BBC hafa verið sendir á námskeið þar sem þeir eiga að læra að segja satt. Þetta var ákveðið eftir að upplýst var um stórfelldar falsanir í útvarps- og sjónvarpsþáttum þar sem fé var safnað.

Þáttastjórnendur fölsuðu niðurstöður meðal annars með því að hafa barn í útvarpssal sem var látið koma með rétt svar þegar þeir sem hringdu inn gátu ekki rétt. Þrír þáttastjórnendur hafa þegar verið reknir vegna þessa.

Tveir yfirmanna BBC mættu fyrir breska þingnefnd í gær þar sem þeir hlutu slæma útreið. Þess var meðal annars krafist að þeir breyttu myndröð í kynningu á sjónvarpsþætti, þar sem lítur út eins og Elísabet drottning hafi rokið burt í fússi eftir orðaskipti við ljósmyndara.

Breski íhaldsþingmaðurinn Philip Davies var ekki hrifinn af námskeiðinu fyrir starfsfólk BBC. Hann spurði hvort það væri rétt meðferð á áskriftargjöldum að setja þau í námskeið til að kenna fólki að ljúga ekki. Hvort ekki væri rétt að endurskoða frekar ráðningarferli stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×