Erlent

Stofnandi Facebook sakaður um að hafa stolið hugmyndinni

Jónas Haraldsson skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. MYND/AP
Tengslavefurinn Facebook á nú yfir höfði sér málsókn frá stofnendum annars tengslavefs, ConnectU. Þeir segja stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg, hafa stolið hugmyndinni frá sér á meðan þau voru saman við nám í Harvard háskóla.

Facebook er orðinn næst stærsti tengslavefur í heimi með um 31 milljón notenda á meðan ConnectU hefur aðeins 70 þúsund notendur. Stofnendur ConnectU, Cameron og Tyler Winklevoss og Divya Narenda, hafa krafist þess að hljóta eignarrétt yfir Facebook.

Zuckerberg hafnaði á síðasta ári eins milljarðs dollara tilboði í síðuna frá leitarfyrirtækinu Yahoo.

Stofnendur ConnectU segja að á meðan námi þeirra með Zuckerberg í Harvard stóð hafi hann samþykkt að klára að skrifa kóðann að ConnectU. Hann hafi síðan sífellt seinkað því og að lokum búið til Facebook og byggt þann tengslavef á hugmyndum stofnenda ConnectU.

Zuckerberg segir ConnectU engar sannanir hafa fyrir ásökunum sínum. Þá segja lögfræðingar Facebook að aðeins einn fjórmenninganna hafi haft nógu góða hugmynd til þess að eitthvað yrði úr henni og að það hafi verið Zuckerberg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×