Erlent

Samgönguráðherra Bretlands lofar úrbótum á lestarsamgöngum

MYND/AP

Ruth Kelly, samgönguráðherra Bretlands, hefur greint frá því að milljörðum punda verði varið til að bæta lestarsamgöngur í landinu. En samgöngurnar anna sem stendur ekki eftirspurn. Aðgerðirnar eiga að stuðla að stærri og öflugri járnbrautum sem geta flutt allt að helmingi fleiri farþega fyrir 2030.

Kelly segir að 10 milljörðum punda verði varið fyrir 2014 til að bæta þjónustuna og lengja lestarnar. Meðal loforða eru 1.300 fleiri lestarvagnar, aukning farþega um 180 milljónir á næstu sjö árum og umbætur á 150 lestarstöðvum.

Neytendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að fargjöld muni hækka í kjölfar umbótanna en ráðherrann segir þau ekki mega hækka um meira en 1% umfram árlega verðbólgu. Hagsmunaaðilar telja að farþegar geti átt von á allt að 34% hækkun.

Kelly segir ríkisstjórnina nú hafa sett saman metnaðarfyllstu áætlun um vöxt lestarsamgangna í 50 ár. Hún segir markmiðið vera að bjóða upp á fleiri ferðir, í betri lestum, sem ganga oftar og á öruggari og ódýrari hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×