Erlent

Mannskæð hitabylgja í Ungverjalandi og víðar í Suður-Evrópu

Samskonar vél og fórst á Grikklandi
Samskonar vél og fórst á Grikklandi MYND/AP

Um 500 dauðsföll í Ungverjalandi síðastliðna viku eru rakin til hitabylgjunnar sem gengur nú yfir Suður-Evrópu. Þetta er mesta mannfall vegna hita í landinu um margra ára skeið. Um 30 manns í nágrannalandinu Rúmeníu hafa einnig látið lífið í hitabylgjunni.

Hitabylgjan sem gengið hefur yfir Suður-Evrópu undanfarið hefur víða valdið skógareldum og miklu efnahagstjóni.

Landbúnaðarráðherra Serbíu segir 30% af uppskeru landsins vera ónýta vegna hitanna og hefur hveiti, soya og grænmetisuppskeran orðið verst úti.

Þá hafa skógareldar valdið miklum vandræðum á Grikklandi en tveir flugmenn sem unnu við að slökkva eldana létust eftir að hafa blindast í reykjarmekki og flogið inn í fjallshlíð. Samskonar vél fórst við slökkvistarf á Ítalíu í gær en þar hafa skógareldar einnig blossað upp. Þrír fórust í slysinu.

Á sama tíma hafa rigningar og flóð valdið vandræðum og dauða í Norður-Evrópu sem ýtir undir áhyggjur af því að loftslagsbreytingar valdi þessu óvenjulega veðurfari, að því er fram kemur á fréttavef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×