Erlent

Varnargarðar reistir meðfram Thames-ánni

Óli Tynes skrifar

Breskar björgunarsveitir hamast nú við að byggja varnargarða neðarlega meðfram Thamesá þar sem búist er við miklum flóðum á næstu dögum. Hundruð þúsunda manna hafa enn ekki neitt hreint vatn til drykkjar, en verið er að koma rafmagni á á nýjan leik.

Flóðin í Thamesá hafa náð hámarki í Oxford og gerðist það án teljandi tjóns. Neðar við ána eru björgunarsveitir hinsvegar að hamast við að byggja varnargarða þar sem lágt liggur, þar sem búist er bið flóðbylgjum niðureftir ánni á næstu dögum.

Í Vestur-Englandi eru nú flóðin smám saman að sjatna og verið er að koma rafmagni á aftur. Enn eru þó tugþúsundir heimila án rafmagns og 350 þúsund manns hafa ekkert ferskvatn. Tankbílar með hreint vatn streyma nú til flóðasvæðanna.

Bílar og hús eru enn á kafi og allar samgöngur á landi hafa stórlega truflast. Þyrlur eru í stöðugum ferðum auk þess sem bátar eru notaðir til þess að ferja bæði fólk og vistir. Þetta eru verstu flóð sem orðið hafa í Bretlandi í sextíu ár.

Orsökin er gríðarlegar rigningar og sem dæmi má nefna að á föstudaginn mældist úrkoman 120 millimetrar á nokkrum stöðum. Og útlitið er satt að segja ekki gott. Spáð er áframhaldandi úrkomu á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×