Erlent

80 þúsund heimili rafmagnslaus í Barcelona í dag

Jónas Haraldsson skrifar
Lögreglan þurfti að stjórna umferð í gær og í morgun þar sem umferðarljós virkuðu ekki.
Lögreglan þurfti að stjórna umferð í gær og í morgun þar sem umferðarljós virkuðu ekki. MYND/AFP

Um 80 þúsund heimili í Barcelona, næststærstu borg Spánar, sjá í dag fram á annan daginn í röð án rafmagns. Rafmagnskapall slitnaði í gær og varð til þess að eldar kviknuðu á fjölmörgum rafstöðum. Í gær voru allt að 300 þúsund heimili rafmagnslaus vegna atviksins.

Talsmaður Endesa raforkufyrirtækisins sagði að fjölmörg sjúkrahús hefðu fengið sína eigin rafla strax í gær. Umferðarljós á sumum stöðum í borginni voru ekki komin í gagnið í morgun.

Í nótt gengu lögreglumenn götur Barcelona til þess að koma í veg fyrir að glæpamenn nýttu sér ástandið. Þá var engin loftkæling, posar virkuðu ekki og búðir þurftu að loka þar sem kælibúnaður hætti að virka.

Ekki hefur komið í ljós hversvegna rafmagnsleysið varð svo útbreitt og hver ber ábyrgð á málinu. Talsmenn raforkufyrirtækja segja of snemmt að segja til um slíkt en að þau, Endesa og Red Electrica, muni rannsaka málið um leið og viðgerðum ljúki.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×