Erlent

Mugabe ætlar að þjóðnýta fyrirtæki í Zimbabwe

Jónas Haraldsson skrifar
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. MYND/AFP
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, mun á næstunni kynna nýtt frumvarp um þjóðnýtingu og annað þess efnis að forseti landsins verði ekki kosinn af almenningi heldur þingmönnum. Zimbabwe, sem var áður eitt gjöfulasta land í suðurhluta Afríku, berst nú í bökkum vegna mikils matarskorts og gríðarlegrar verðbólgu.

Þjóðnýtingaráætlun Mugabe hefur þegar mætt mótstöðu hjá almenningi en til stendur að þjóðnýta banka og námufyrirtæki. Umbætur Mugabe í landbúnaði misfórust verulega en margir rekja matarskortinn í landinu til þeirra aðgerða. Þá tók hann býli hvítra bænda til ríkisins og dreifði þeim síðan til stuðningsmanna sinna sem vissu mismikið um landbúnað.

Þing verður sett í vikunni en það er það síðasta fyrir fyrirhugaðar kosningar í landinu í mars á næsta ári. Búist er við því að þar muni Mugabe kenna Bandaríkjunum og Bretlandi um ástandið í landinu. Hann vill meina að refsiaðgerðir þeirra vegna aðgerða hans í landbúnaði séu að lama landið.

Verðbólga í Zimbabwe er nú að nálgast 5.000 prósent og búðir eru nánast tómar. Þá er talið að um þrjú þúsund manns flýji landið á hverjum degi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×