Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan niður fyrir níu þúsund

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3 prósent í Kauphöll Íslands í dag. Velta á markaði nam 12,4 milljörðum króna í 951 viðskiptum. Vísitalan fór því aftur niður fyrir níu þúsund stiga markið og stendur í 8.989 stigum.

Bréf í Alfesca lækkuðu mest; um 2,72 prósent. Teymi lækkaði um 2,3 prósent og FL Group um 1,8 prósent.

Föroya Bank hækkaði félaga mest; um 2,09 prósent. Bréf í Össurri hækkuðu um 1,84 prósent og í Marel um 1,27 prósent.

Krónan veiktist um 0,06 prósent og stendur gengisvísitalan í 110,6 stigum.

Talsverð velta hefur verið á markaði undanfarna daga og vikur. Úrvalsvísitalan hefur nú hækkað um fjörutíu og eitt prósent það sem af er ári, og sjá sérfræðingar enn frekari hækkanir í spilunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×