Erlent

Tékkar andvígir bandarískum eldflaugum

Óli Tynes skrifar
Ekki í mínu landi, segir meirihluti Tékka.
Ekki í mínu landi, segir meirihluti Tékka.
Nærri tveir þriðju af íbúum Tékklands eru því andvígir að hluti af kerfi bandarískra loftvarnaeldflauga verði sett upp þar í landi, samkvæmt opinberri skoðanakönnun. Andstaðan hefur aukist frá skoðanakönnun sem gerð var í maí. Það gæti því orðið erfitt fyrir ríkisstjórnina að koma málinu í gegnum þingið.

Í skoðanakönnun sem gerð var í maí voru 61 prósent frekar eða mjög andvíg eldflaugakerfinu. Í nýju könnuninni er sú tala 65 prósent. Aðeins 28 prósent eru fylgjandi. Bandaríkin hyggjast koma fyrir tíu loftvarnaeldflaugum í Póllandi og ratsjárstöð í Tékklandi.

Þessi eldflaugaskjöldur á að verja Bandaríkin og Evrópu fyrir hugsanlegum árásum frá útlagaríkjum eins og Norður-Kóreu og Íran.

Ekki hefur enn náðst endanlegt samkomulag um málið milli ríkisstjórna landanna, þótt báðar evrópsku ríkisstjórnirnar þessu hlyntar.

Rússar hafa hinsvegar lýst harðri andstöðu. Ríkisstjórn Tékklands hefur 100 sæti á þingi en alls eru þingmenn 200. Stjórnin þarf því bæði stuðning allra sinna manna og að minnsta kosti eins stjórnarandstæðings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×