Erlent

25 fórust þegar bygging hrundi í Mumbai

Jónas Haraldsson skrifar
Björgunarmenn sjást hér leita að fólki í rústum byggingarinnar.
Björgunarmenn sjást hér leita að fólki í rústum byggingarinnar. MYND/AP

Að minnsta kosti 25 manns fórust þegar gömul bygging hrundi í Mumbai, fjármálamiðstöð Indlands. Talið er að tugir séu enn fastir í rústum byggingarinnar. Björgunarmenn eru nú að fara í gegnum þær í leit að þeim sem lifðu af.

Byggingin var sjö hæða og var staðsett í þéttbýlu hverfi í norðurhluta borgarinnar og hrundi seint á miðvikudagskvöldið. Lögregla á staðnum sagðist ekki vita hversu margir hefðu búið í byggingunni en talið er að á bilinu 25 til 40 manns gætu enn verið undir rústunum.

„Við höfum fengið símtöl frá fólki sem er fast undir rústunum," sagði lögreglustjórinn, Shivaji Bodke. Yfirvöld segja að viðhaldsvinna við húsið hafi leitt til þess að það hrundi. Einhverjar búðir voru í byggingunni og læknastofa var á jarðhæð hennar.

Gamlar eða illa byggðar byggingar eiga það til að hrynja á rigningartímabilum í Indlandi. Yfirvöld í Mumbai halda úti lista yfir hættulegar byggingar sem gætu hrunið en byggingin sem hrundi í gærkvöldi var þó ekki á þessum lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×